10. maí 2004

Jahérna, blogger hefur aldeilis breyst síðan ég skrifaði í gær!
Það er einna helst í fréttum að það er búið að skrifa undir og handsala kaupsamninginn að Grandahúsinu mínu og mér til mikillar ánægju fékk ég að hlusta aftur á fasteignasalann lesa heila A4 blaðsíðu af lögfræðimáli prentað með 4 punkta letri, þurfti síðast að hlýða á þessa rullu á föstudaginn. Þetta gerir hann til að fría fasteignasöluna ábyrgð þar sem það er búið að kynna okkur öll lagaleg atriði. Hann hefði alveg eins getað lesið fyrir mig Kóraninn á arabísku því þetta fór allt inn um annað og út um hitt...
Ég hitti sjúkraþjálfara í morgun og fékk TNS tæki á leigu, það verður spennandi að vita hvort þetta virki. Ég vona það því ég ætla að reyna lyfjalausa fæðingu þegar þar að kemur. Gagnsemin er ekki vísindalega sönnuð, en ég trúi frekar á áhrif rafstraums en bæna!
Síðasta prófið á morgun. Þegar því verður lokið á ég bara eftir að fara í kynnisferð á fæðingardeildina, með grísastelpu til tannlæknis, halda saumaklúbb og afmælisboð og eftir það verð ég búin að öllu og tilbúin til að fjölga mannkyninu!

Engin ummæli: