13. janúar 2008

Tannlæknirinn sá aumur á mér og tróð mér í skoðun í hádeginu á föstudaginn. Það var ekkert athugavert við tennurnar á mér en ef ég yrði ekki skárri eftir helgina væri hugsanlegt að það þyrfti að rótarfylla tönn. Klukkan fimm fór ég að grenja og dreif mig upp á heilsugæslustöð til að athuga hvort ég mætti éta eitthvað kraftmeira en paratabs. Ég fékk sýklalyf og risapakka af parkódín. Hef ekki grenjað síðan og er vongóð um að það verði ekkert af rótarfyllingu.
Líklega hef ég lent í árás sýkla sem hreiðruðu um sig í kinnholu minni. Þeir urðu að finna upp á einhverju nýju fyrst ég hrindi af mér öllum umgangspestum.

Þar sem ég er mest búin að sitja og liggja í aumingjaskap af völdum meintra sýkla er grindverkur í sögulegu hámarki og ef ég get staulast í vinnuna á morgun þarf ég varla vottorð til að sýna fram á skerta starfsgetu.

En á meðan ég hef legið í kör er búið að sparsla og mála svefnherbergið og í þessum skrifuðu orðum eru Skröggur og pabbi hans að leggja parketið. He-man fór í blak með ömmu sinni og ég er að hvíla lúin bein eftir að hafa tekið niður restina af jólaskrautinu.

Grísastelpan fór eftir áramót austur í sveitasæluna til ömmu og afa. Hún ætlar að klára grunnskólann þar í notalegra umhverfi en gagnfræðaskólar höfuðborgarsvæðisins bjóða upp á.
Nú er ég í miklum samningaviðræðum við Bumba um að hann megi ekki koma fyrr en ég er búin með vettvangsnámið en hann verði samt að koma áður en Grísastelpa fer aftur austur úr páskafríinu. Hann er að hugsa málið.

Ég þarf að fara að byrja á BA verkefninu mínu. Ég er allavega byrjuð að hugsa um það... og búa til grind. Þarf að drífa mig að komast í samband við heppilega foreldra til að taka viðtal við. Þegar ég er búin með viðtölin er mér ekkert að vanbúnaði að skrifa eins og vindurinn. Ótrúlegt að þetta sé síðasta önnin. Ég skal útskrifast í vor!

Engin ummæli: