Ég er ólýsanlega fegin að hafa verið búin að taka hringinn af fingrinum á mér áður en hendurnar mínar breyttust í skrímsli með pylsuputta. Ég er allt í einu orðin vel ólétt. En það er nú allt í lagi, það er ekki langt eftir svo ég hlýt að geta afborið þessa afskræmingu í nokkrar vikur í viðbót. Eftir mánudaginn þarf ég ekki einu sinni að fara út úr húsi nema í eftirlit svo sama er mér þótt ég líti út eins og mislukkað bjúga.
Bumbi er orðinn 12 merkur samkvæmt sónar og er fastskorðaður. Það er allt tilbúið fyrir hann nema sængin sem ég á eftir að þvo. Það geri ég líklega á morgun. Ég hlakka mikið til að hitta hann og sveiflast á milli þess að vilja fá hann strax eða að ná að klára BA verkefnið fyrst. Ég skal klára verkefnið í næstu viku...
Ég er búin að lesa fæðingarbækurnar hennar Ynju svo oft að ég er hætt að fá sting þegar ég hugsa um fæðinguna. Ég er komin í keppnisskap og spila til að vinna. Í staðinn fyrir bikar fæ ég spriklandi og organdi kríli í fangið.
Það má alveg koma í heimsókn þótt ég sé að ritgerðast... fer að verða síðasti séns að sjá mig ólétta ef einhver hefur áhuga á því :)
2 ummæli:
Kem og kíki á ykkur kríli á næstu dögum ;)
Unnar
hæhæ
Jæja, heldur betur orðið stutt í komu krílana hjá okkur...ég verð brjáluð ef þú verður á undan mér:) hehehee
En gangi þér vel að klára lokaverkefnið...það er svooooo gott þegar það er búið.
kv. Fríður
Skrifa ummæli