4. mars 2004

Leifur var búinn að tengja eftirlifandi tölvuna við prentarann þegar ég kom í vinnuna í morgun svo ég gat prentað út dúkkulegar myndir af brauðraspi, þvottefni og fleiru sem ég svo klippti út og plastaði og klippti svo aftur út í plastinu. Það, ásamt því að kryfja heimsmálin til mergjar ásamt öðrum kjaftagangi dugði mér til hádegis. Þá fékk Heiða það snjallræði að ég gæti tekið saman allar lyfjagjafir og lyfjabreytingar íbúanna (eða andstæðinganna eins og Ynjan kallaði þau á góðri stund) frá árinu 1995. Það er verðugt verkefni og gott að endurnýja kynnin við Excel af ætt Bill Gates.
En nú er ég komin heim, búin að syngja í sturtu og er að fara að hjálpa stelpugrísnum að pakka niður því hún ætlar að fara í ömmufaðm í Fellabæ á morgun og vera þar í rúma viku.
Sem minnir mig á hvað mér finnst mikilvægt að hafa flugvöllinn í næsta nágrenni... það munar þokkalega um það hvort maður er fimm mínútur að skjótast út á flugvöll eða þurfi að keyra út á Keflavíkurflugvöll en tíminn sem það tekur er kannski u.þ.b. 1/10 af þeim tíma sem tekur að keyra bara austur!

Engin ummæli: