8. mars 2004

Saga af læknavaktinni
Þegar viss óþægindi sem ég var byrjuð að finna fyrir á laugardaginn voru orðin að óbærilegum kvölum í gær brunaði ég upp á Læknavakt. Eftir að hafa beðið í röð í 10 mínútur komst ég að búrinu þar sem truntuleg kerling hreytti út úr sér spurningum um nafn, kennitölu o.s.frv. Að því loknu mátti ég bíða ásamt fullri biðstofu af hóstandi fólki og skrækjandi börnum í að minnsta kosti 30 mínútur. Ef lesefnið þarna átti að stytta manni stundir hefði maður þurft að vera áhugamaður um ísskápa, iðjuþjálfi eða þriggja ára. Loks eftir langa bið var mér vísað inn á aðra minni biðstofu. Og þar voru öll blöðin! Séð og heyrt í röðum...
'Næsti gjörðu svo vel!' Ég trítlaði inn og fékk dauðsfiskshandaband frá þurrpumpulegum lækni sem umlaði nafnið sitt þannig að ég náði því bara alls ekki. Svo sagði ég honum hvar mér væri illt og hann horfði á mig með fýlusvip og spurði hvort ég væri ólétt! (til að vera viss um að ég hafi ekki gleypt sundbolta eða...?) Næst lagðist ég á bekkinn og mannandskotinn ýtti á veika staðinn og spurði hvort það væri vont! (Var ég ekki að segja honum að mér væri illt þarna) Eins og ég hefði keyrt upp í Kópavog, beðið í næstum því klukkutíma til að hitta fúlasta lækni í heimi til að ljúga til um hallærislegasta sjúkdóm í heimi? Svo skrifaði hann lyfseðil og skóflaði mér út.
Maður fékk á tilfinninguna að starfsfólkið þarna væri í einhverskonar afplánun, skikkað til að vera móttökuritari eða læknir og fyrir hvern sjúkling sem myndi slæðast þarna inn yrðu greidd þrjú svipuhögg. Eina leiðin til að fækka svipuhöggunum væri að senda sjúklingana gráti næst út.
Niðurstaða: ég hata Læknavaktina meira en Sjálfstæðisflokkinn og þá er nú mikið sagt.

Engin ummæli: