Það var mikið að gera hjá mér í gær, en ég gerði bara það sem er gaman, hugsaði ekki um hópverkefni eða heimilisstörf eða þá staðreynd að ég á ekki grænan fimmeyring inni á reíkiningnum mínum.
Ég byrjaði á því að hitta Hlín sem hefur verið vinkona mín síðan ég var fimm ára, eða í 24 ár!!! Það var samt ekki fyrr en í fyrrasumar að ég komst að því að hún væri náfrænka hans Gunnþórs. Hún verður þrítug á þriðjudaginn og fékk pakka í tilefni þess. Við löbbuðum upp og niður Laugaveginn í fínu veðri og góðum fíling þar til beinagrindin mín minnti mig á að ég er ekki kona einsömul... með þeim afleiðingum að ég varð eins og kjagandi gæs, gat ekki labbað meira en þurfti að fara heim að hvíla mig. Glatað! Eftir smá hvíld fórum við Kristinn að heimsækja næsta afmælisbarn sem er reyndar alls ekki barn heldur amma mín. Hún varð 74 ára í gær og var voða ánægð með að við mundum eftir afmælisdeginum hennar. Þaðan var haldið í hina skemmtilegu verslun Europris sem hafði auglýst ódýr prenthylki og viti menn, þau voru af réttri gerð fyrir prentarann okkar þannig að við fengum fjögur hylki fyrir sama verð og eitt hylki af fínni tegund kostar. Svo fórum við heim og prentuðum og prentuðum og sáum engan mun á gæðunum!
Um kvöldið var enn eitt afmælið, en það var hún Inga sem sló saman innflutnings- og afmælispartýi og hrúgaði þar saman alls konar fólki, allt frá sveitavörgum til tölvunörda. Þar flæddi að sjálfsögðu allt í áfengi og girnilegum hlaupstaupum og ég fylgdist með af áhuga hvernig hegðun viðstaddra breyttist smám saman í réttu hlutfalli við fjölda áfengiseininga. Ég sá líka hvað fullt fólk er fyndið þegar það syngur... virðist ekki átta sig á því að það syngur falskt og þar að auki er sungið með svo mikilli tilfinningu að andlitin afmyndast eins og hjá litlum börnum þegar þau sk... :) Veit að ég hef sjálf verið sek um þetta og hef lofað mér því að syngja aldrei aftur á fylleríi!!! En þegar skemmtunin var að komast í hámark ákvað bumbugrís að nú væri nóg komið og sendi mér vænan skammt af brjóstsviða til að ég myndi hundskast heim sem ég og gerði.
En í dag er nýr dagur, dagur til að vera duglegur námsmaður á meðan makinn horfir á einhverja vitleysinga keyra í hringi á dýrustu bílum í heimi áður en hann skiptir yfir í fótboltann...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli