28. apríl 2004

Glöð í bragði sendi ég kennaranum ritgerðina mína með tölvupósti. Skömmu seinna kom tilkynning til allra nemenda í kúrsinum: Af gefnu tilefni minni ég á að skiladagur lokaverkefnis er 3. maí frá kl. 9-12.
Ég vissi að skiladagur væri 3. maí, en af einhverjum undarlegum ástæðum (sem eru trúlega styrkingarsaga skólagöngu minnar) gerði ég ráð fyrir að það væri síðasti séns að skila þennan dag. Hvað gerist nú? Verð ég lækkuð fyrir að hafa skilað of snemma? Verð ég kannski rekin fyrir óhlýðni? Spyr sú sem ekki veit... og kennarinn hefur enn ekki svarað mér...

Bumban var skoðuð í morgun og eins og áður er allt eins og best verður á kosið þarna inni. Mosi er orðinn vel skorðaður, og er nú búinn að standa á haus í a.m.k. rúman mánuð. Blóðþrýstingurinn minn er eins og hjá hraustum ungum karlmanni ef miðað er við hina helgu bók Introduction to the Human Body sem er eitt af próflestrarefninu þessa dagana.

Og dagurinn í dag hefur liðið hratt þar sem skiptust á lestrarlotur og hrotur fyrir utan smá gönguferð í búð Melanna þar sem fást appelsínur og melónur, namm namm. Undarleg þessi ólétta, nú langar mig ekkert lengur í freyjurís heldur ávexti í tonnatali og svo er skyndilega orðið grundvallaratriði að eiga alltaf kalt vatn í tveggja lítra flösku í ísskápnum til að þamba af stút!

Tengdamamma mín á afmæli í dag, 49 ára og eftir nákvæmlega þrjá mánuði á ég líka afmæli og verð 29 ára. Og Ronja á 13 ára fermingarafmæli í dag... til hamingju!

Engin ummæli: