1. maí 2004

1. maí

Það er svo margt sem mig langar til að mótmæla...
1. Ég hef aldrei stutt innrásina í Írak og þekki engan sem gerir það.
2. Ég vil að skattpeningunum mínum sé frekar varið í heilbrigðiskerfið (þar sem er stöðugur niðurskurður) heldur en sendiráð og annað mont.
3. Ég vil að ríkisstjórnin og þingmennirnir séu fulltrúar fólksins sem kaus þá en ekki druslur einræðisherrans Davíðs.
4. Ég vil að afbrotamenn fái dóma í samræmi við glæpina sem þeir frömdu.

En þeir sem ráða taka ekki mark á mótmælum, einu sinni fór ég í ausandi rigningu að mótmæla Íraksstríðinu ásamt fullt af öðru fólki og næsta dag las ég um viðbrögð einræðisherrans sem sagði að þetta væri nú ekkert að marka, þetta fólk mótmælti öllu og hefði ekkert betra við tímann að gera. Fífl.

En svona á léttari nóturnar... í gær voru liðin 15 ár síðan ég klæddist svörtum bermúdabuxum, hvítri skyrtu, skræpóttu vesti og skóm með stáltá, fór á hárgreiðslustofu og lét setja hvítan blómakamb í hárið með tilheyrandi túberingum og hárblæstri, arkaði svo í kirkju, skolaði niður oblátu með víni og sagði já og var þá komin í kristinna manna tölu. Fékk hljómflutningstæki og fleira að launum. Ég telst víst enn til kristinna manna þótt græjurnar séu ónýtar og ég fari aldrei í kirkju nema ég sé skikkuð í skírnir og jarðafarir og trúi ekki á góðan guð sem stjórni öllu ofan af himnum.
En í tilefni þessa 15 ára fermingarafmælis hittumst við fermingarsystkinin sem vorum stödd hér í borginni og fórum saman út að borða. Það var mjög gaman og maturinn vel útilátinn og góður. Mæli með veitingastaðnum Rossopomodoro... nammmmmm...

Nú er víst mál til komið að gleyma stað og stund og sökkva sér í skólabækurnar.

Engin ummæli: