7. maí 2004

Enginn framleiddi þráðlausa netkortið mitt, þess vegna var það svona ódýrt. Góði maðurinn í gagnasmiðjunni er búinn að vera í 1 1/2 tíma að reyna að koma mér inn á netið í skólanum með tilheyrandi bölvi. Hann er að leita að nýjum ökuþór (driver) á netinu sem gæti hugsanlega leyst vandann.

Eitt próf búið, eitt próf eftir. Ég sætti mig við einkunn sem er lægri en 9 að þessu sinni vegna aðstæðna. Andlegur undirbúningur fyrir fæðinguna er mikilvægari en nokkur lærdómur því það er alltaf hægt að taka þessi próf aftur en fæðingin er einstakur viðburður. Betri er heill Mosi en há einkunn...

Í nótt dreymdi mig skít sem samkvæmt draumaráðningarspekingum boðar flóð af peningum. Og aldrei þessu vant stenst svona vitleysa því við fáum fullt af milljónum í dag, erum að fara á fasteignasöluna að skrifa undir. Annars trúi ég ekki að draumar boði eitt eða neitt, þeir eru bara líffræðileg virkni í hausnum á manni á meðan maður sefur og hvernig getur frumutetur vitað eitthvað frekar en eigandinn um hvað framtíðin ber í skauti sér? Rökrétta skýringin á þessum draumförum er að á meðan ég lá á mínu græna eyra sagði ein heilafruma við aðra: 'Er ekki undirskrift á morgun?' 'Jú', svaraði hún, 'þá fá þau fullt af peningum!' Þá kom þriðja fruman, og sagði 'money is shit' með þeim afleiðingum að mig fór að dreyma skít.

Engin ummæli: