18. maí 2004

Þetta hefur nú verið aldeilis fínn dagur.
Vaknaði rétt fyrir kl. 6 og átti kyrrláta stund með breskri glæpasögu þar til ég sofnaði í sófanum. Vaknaði svo aftur á kristilegum tíma full af orku og fór að strauja barnaföt og raða þeim í skúffur, gera vögguna klára og pakka niður helstu nauðsynjum til að hafa tilbúnar ef ég þyrfti að bruna á fæðingardeildina í skyndi. Svo dundaði ég mér við útsauminn, er hálfnuð með einn bangsa af fimm... svaka árangur, með þessu áframhaldi verð ég búin með myndina um áramót! Svo lék ég mér í kassaleiknum góða sem ég fann á netinu, lagði mig og fór svo í gönguferð.
Svo kom pínulítil skvísa í heimsókn með mömmu sinni og þær voru svo sniðugar að lána mér dásamlega þætti frá BBC, the human body, en það eru þættir um manninn frá getnaði og þar til hann deyr. Við fjölskyldan horfðum svo á þáttinn um getnað, meðgöngu og fæðingu og kerlingin klökknaði bara þegar hún hugsaði um hvað Mosi væri nú mikið kraftaverk því það er bara 12 sinnum á ári sem getnaður getur átt sér stað og þótt getnaður heppnist er alls ekki víst að hann beri árangur.
Samkvæmt draumförum mömmu fæðist Mosi 19. maí... það eru tæpir tveir klukkutímar þar til sá dagur rennur upp! Svo hvíslaði lítill fugl því að mér að það yrði fullt tungl á morgun, en það á víst að auka líkur á fæðingu! En við skulum sjá hvað setur...
Lauga kom að skila bjórnum sem ég lánaði henni um daginn, hann hafði nú eitthvað rýrnað á leiðinni en það er hið besta mál því þá þarf hún að koma aftur í heimsókn seinna :)
Á meðan Lauga naut hinnar alræmdu gestristni minnar komu karlarnir frá Smith og Norland með nýju þvottavélina mína svo við drifum okkur auðvitað niður í þvottahús að horfa á Löður...
Mikið hlakka ég til að taka nýþvegin handklæðin úr vélinni, vel skoluð og undin - í stað þess að vera hálfblaut og þakin þvottadufti, og hengja þau upp á snúru þar sem þau munu þorna á svipstundu...

Engin ummæli: