Það hefur gengið á ýmsu hér á melunum.
Var í mestu makindum að undirbúa saumaklúbb í gær þegar íbúðin fyllist skyndilega af börnum, foreldri og grátandi grísastelpu. Stelpuskjátan hafði dottið á línuskautum og var voðalega illt í hendinni. Það var auðvitað hringt í björgunarmanninn Skrögg sem kom brunandi, ávallt viðbúinn eins og gömlum skáta sæmir. Þau fóru upp á slysó og til baka kom grísastelpa með brotna hönd í fatla. Grísastelpa sem er að fara til Gautaborgar að spila á lúðrasveitamóti...
Jæja, áfram með hrakfarir, ég var búin að sulla saman efni í heitan rétt en þegar ég setti hann í ofninn vildi ekki betur til en svo að helv... formið snérist í höndunum á mér og helmingurinn af sullinu hrundi á ofnhurðina sem var sjóðandi heit, osturinn bráðnaði um leið og pikkfestist, mér til mikillar ánægju!
Næsta áfall var að uppþvottavélin neitaði að þvo alla diskana eftir saumaklúbbinn, sjálfsagt móðguð að fá ekki að vera með! Það er sko hægara sagt en gert að vaska upp með svona bumbu, ég næ varla ofan í vaskinn. Gróf upp einhverja plastdiska til að nota í barnaafmælinu á eftir.
Held að óhappatímabilið sé yfirstaðið, að minnsta kosti heppnaðist gulrótarkakan sem ég bakaði í morgun... reyndar þarf kraftaverk til að klúðra Betty Crocker!
Við sjáum hvað setur :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli