5. júní 2004

Eftir að hafa farið á kostum með kíttispaðann og spartlið hélt ég því fram að ég væri greinilega enn einu sinni á rangri hillu í lífinu, ég ætti að verða málari. Svo tók ég mér rúllu í hönd og skipti snarlega um skoðun, ég hef ekki nógu góðar grófhreyfingar til að mála veggi...
Ömmusystir mín bauð okkur í mat í gærkvöldi, ég var skíthrædd því ég vissi að hún ætlaði að elda lax og ég sá fyrir mér eitthvað í líkingu við silung og silungasúpu sem er með því versta sem ég veit. Laxinn var svo bara ljúffengur, enda ekki við öðru að búast þegar hann er eldaður af konu sem vann í mötuneytinu hjá Samvinnutryggingum í mörg ár með þvílíkum árangri að hún fær ennþá afmælisgjafir og jólakort frá körlunum sem unnu þar. Amma mín kom líka í matarboðið, svipmeiri en venjulega því hún gleymdi að hún væri að lita á sér augabrúnirnar þegar síminn hringdi fyrr um daginn.
Stundum er gott að geta skipt um skoðun. Fyrir stuttu hafði ég litla trú á því að fólk gerði eitthvað án þess að hagnast á því. Núna hef ég séð að það er til fullt af góðu fólki, meira að segja rosalega góðu fólki sem gefur án þess að ætlast til nokkurs í staðinn.
Ísland, England, bjór, hnetur og málning á morgun. Áfram Ísland!

Engin ummæli: