Í gær var ég góð ömmustelpa, fór með ömmu að kjósa og svo í Hagkaup þar sem Íslendingum finnst skemmtilegast að versla þegar þeir eru ekki í fylgd með gömlum konum sem finnst leiðinlegt að versla en vantar ískex og aðrar nauðsynjar... Annars dettur mér ekki í hug að vera eitthvað að nöldra yfir því þar sem ég fékk risatertusneið og kaffi á kaffihúsi að launum.
Grísla litla kom heim í nótt, litla barnið sem ég hafði ímyndað mér skjálfandi af kulda í rigningunni í Svíþjóð, birtist sem myndarleg ung kona, útitekin og hress í stuttermabol! Það tók mig líka nokkur sekúndubrot að átta mig á að þetta væri afkvæmið mitt. Fjarlægðin gerir ekki bara fjöllin blá heldur börnin minni en þau eru!
Mér finnst slim&fit te-ið ekki virka neitt. Kannski neyðist ég til að hætta að bragðbæta það með sykri til að það fari að virka...
Er að fara á minn fyrsta húsfélagsfund sem virðulegur eigandi blokkaríbúðar. Ég ætla að smjatta á tyggjói og blása kúlur með heimskusvip svo engum detti í hug að gera mig að formanni eða gjaldkera.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli