4. ágúst 2004

"Tetta er allt í reki. Voðalega mekið rek" sagði ömmusystir á Seyðisfirði. Gaman að heyra flámæli aftur (eða attur eins og ömmusystir segir) því það eru ekki margir sem tala svona lengur.
Er búin að vera á Austurlandinu síðan á sunnudag, í góðu yfirlæti eins og vanalega. Bjalla mágkona er í paradís hérna því það eru 10 skref út í móa þar sem er hægt að hlaupa sig vitlausa, velta sér upp úr leðju og æða því næst út í Lagarfljótið og busla þar.
Á leið hingað á Hérað gistum við í sumarbústað í Norðurárdal þar sem ég prófaði svokallað sexhjól, það var svaka stuð að bruna upp um fjöll og firnindi, ár og læki á þessari græju. Best að taka fram að það urðu engin náttúruspjöll! Næsta dag fórum við á Siglufjörð í fylgd skúraskýs. Alla leiðina var heiður himinn og endinn á regnboganum fyrir framan okkur en alltaf mígrigndi á okkur þar til við komum á leiðarenda en þá loks fór skýið sína leið... Á Siglufirði eru nokkrir merkisstaðir, t.d. tröppurnar sem Skröggur minn rúllaði niður þegar hann skreið upp úr vagninum sínum og hola sem hann datt ofan í þegar hann var orðinn aðeins stærri. Svo er þarna mjög skemmtilegt síldarminjasafn.
Svo var ekið í gegn um Ólafsfjörð og Dalvík Gunnþórs og Mola. Á Dalvík er brjóstsykursgerð sem heitir einmitt Moli...
Ma og Pa tóku á móti okkur með besta mat í heimi, grískum spjótum og hrúguköku í eftirrétt. Síðan þá höfum við ekki gert mikið annað en legið í leti og étið á okkur gat, þar til í dag að við fórum niður á Seyðisfjörð. Þar skoðuðum við Dvergastein, Fjarskiptasafn og ömmusystur.
Jæja, tetta er orðið gott í beli...

Engin ummæli: