Ussussuss það mega ekki koma nokkrir sólargeislar án þess að allt fari á annan endann, ríkisskattstjóri gefi öllu starfsfólki sínu frí (afhverju gaf hann okkur ekki afslátt af skattinum, þannig hefðum við öll notið þess að hann var í sólskinsskapi) og Lata Svínka snerti ekki á blogginu sínu í marga daga þrátt fyrir nóg framboð af fréttum...
Þau miklu tíðindi urðu að Kermit nokkur flutti á heimilið. Hann hefur enn ekki aðlagast háttum hér enda kemur hann frá "the land down under" þar sem þykir líklega sjálfsagt að sitja þögull og bryðja fræ með slíkri áfergju að hýðið skýst langt fram á gólf.
Ég er öll að spennast upp fyrir miðvikudaginn en þá er stóri dagurinn, skólinn byrjar og Íslendingar mæta Ítölum... reyndar virðist knattspyrnan vera orðin að aukaatriði þarna á vellinum því Aula Bárðar í Konsert hefur tekist að troða öllum skjólstæðingum sínum inn á völlinn þar sem þeir fá að ímynda sér að þeir séu rosa vinsælir með alla þessa áhorfendur sem eru að sjálfsögðu EKKI mættir til að horfa á Nælon eða Kalla Bjarna...
Við settum saman nýja borðstofuljósið okkar í vikunni. Mikið hefur verið gaman hjá hönnuðinum þegar hann ímyndaði sér vesalings kaupendurna setja það saman. Svona svipað og færeyskur hringdans - eitt skref til hægri og tvö til vinstri því ef tókst að festa saman tvo hluti losnaði eitthvað frá annars staðar... Geðheilsan var ekki upp á það besta þegar skrambans ljósið var loksins komið upp, en nú ríkir aftur birta (5 x 25W í borðstofunni) og friður á heimilinu.
Jamm svo erum við skötuhjú búin að skella okkur á Fahrenheit og ótrúlegt en satt - mér finnst Bush ennþá vera jafn mikill asni. Hins vegar er ég ennþá fúlli út í ríkisstjórn Íslands fyrir að blanda mér í þessa vitleysu.
Lifi ljósið, áfram Ísland, syngi Kermit og þagni Björk.
Góðar stundir.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli