Sjáið þetta fína fjall... þarna vorum við Grísastelpa og Ingalína á toppnum í gærkvöldi!
Það er gaman að vera fjallagylta.
Esja og Keilir unnin, hvaða fjall verður næst?
Þegar ég átti afmæli um daginn fékk ég voða fínt kort sem var ávísun á lúxus andlitsbað og litun í Baðhúsinu. Í morgun lét ég svo verða af því að fara í þetta dekur... Í afgreiðslunni var mér réttur baðsloppur og handklæði. "Hvern skrambann á ég að gera við þetta?" hugsaði ég, því ég var jú bara að fara í andlitsbað! Stelpan sagði mér að fara bara úr öllu nema brjóstahaldaranum... ég jánkaði því bara og fór ráðvillt inn í búningsklefann, og eftir nokkra umhugsun fór ég bara úr sokkabuxunum og bolnum og var þá á stuttu pilsi, nærum og brjóstahaldara þegar ég slengdi mér í sloppinn. Hélt svo bara á handklæðinu undir arminum... labbaði svo niður tröppur þar til ég kom að heitum potti og sætum en þar átti ég að bíða. Eftir langa bið var kallað á mig en þá höfðu kalið af mér þrjár tær og mér leið eins og spítalamat á helvítis sloppnum. "Viltu ekki bara fara úr sloppnum?" Ansi varð ég fegin að hafa ekki farið úr öllu nema brjóstahaldaranum!!! Ég fékk svo að heyra að það væri greinilega langt síðan ég hefði plokkað á mér augabrýrnar og á meðan ég táraðist af sársauka velti ég því fyrir mér hvaða satans asna hefði dottið í hug að konur væru fallegri með plokkaðar augabrúnir. "Þetta er nú meiri lúxusinn" hugsaði ég. Sem betur fer rættist úr þessum hörmungum þegar hún byrjaði að nudda mig með allskyns kremum og möskum og hvað þetta nú heitir allt. "Nú ætla ég að taka burt dauðar húðfrumur" sagði hún. Vitleysa er þetta, ef allar dauðu húðfrumurnar yrðu teknar yrði maður ónýtur því ysta lag húðarinnar er eingöngu úr dauðum frumum! Sem betur fer skildi hún flestar eftir því ég lít ennþá út eins og lifandi manneskja (með dökkar ræmur af augabrúnum og nokkrum fílapenslum fátækari). Komst aldrei að því til hvers handklæðið var...
Ég er greinilega ekki týpan í svona dekurmeðferð!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli