20. september 2004

Það sem gleður einn ergir annan... Grísastelpa hoppaði af kæti þegar hún sá mig en mamma öskraði í símann þegar ég sagði henni að hárið væri orðið rautt. Blondes are brighter bolurinn minn er orðinn úreltur í bili, ef ég hefði ekki eytt vasapeningunum í glansefni fyrir strýið rauða hefði ég kannski keypt nýjan og meira viðeigandi bol.
Í dag var ég dugleg að lesa og er búin með allt sem ég á um óhefðbundnar tjáskiptaleiðir (nema norsku kaflana, legg ekki í þá fyrr en eftir nokkra sopa af gylltu öli).
Grísastelpa er í kennaraverkfalli og það flokkast víst undir verkfallsbrot að laga til í herberginu sínu eða fara út að leika sér. Ég vona að kennararnir gefist ekki upp fyrr en þeir fá almennilega samninga fyrst þeir eru nú að þessu brasi á annað borð.
Stofan mín er full af MDF plötum sem eiga eftir að raðast saman í nýja eldhúsið mitt. Ég er búin að vaska sex sinnum upp í baðherbergisvaskinum og finnst það ekki gaman. Mér er farið að þykja vænna um uppþvottavélina en nokkru sinni áður.
Fór í bókabúð í dag og þar stökk á mig bók sem ég varð að kaupa. Ég las hana og velti því fyrir mér hvers vegna hún er ekki kennd í framhaldsskólum... hún heitir Von og er um sorg, hvernig maður vinnur úr henni og hvernig er viðeigandi að koma fram við fólk sem verður fyrir missi. Hver veit til dæmis að það getur tekið tvö ár að vinna úr sárustu sorginni ef hann hefur ekki lent í neinu sjálfur?
Kannski verð ég aldrei skemmtileg aftur...

Engin ummæli: