5. nóvember 2004

Svei. Ég er ekki að standa mig í húsmóðurhlutverkinu. Mér tókst alveg að láta fara framhjá mér að það yrði lúðrasveitarmót núna um helgina þar til seinnipartinn í gær að ég las tölvupóstinn þar sem stóð að ég þyrfti að slíta út kr 6600 í mótsgjald og senda barnið með dýnu og svefnpoka. Örugglega þarf hún eitthvað meira sem ég veit ekki um þar sem ég skrópaði á fundinum sem var haldinn fyrir löngu... en þar sem mótið verður nú bara hérna rétt fyrir utan bæinn (í Grafarvogi) getur hún nú hringt í mig ef eitthvað vantar. Já, ef hún má hafa símann með??? Einnig tókst einhverjum að stela úr höfði mínu vitneskju um að Skröggur minn færi út á land að halda björgunarnámskeið þessa sömu helgi. Þannig að ég verð hér ein með tveimur fuglum, þar af einum skíthræddum og ósjálfbjarga og ég má ekki hugga hann og knúsa því hann þarf að venjast umhverfinu í rólegheitum svo ónæmiskerfi hans hrynji ekki með alvarlegum afleiðingum. Æ ég hlakka nú samt til að sækja litla skinnið.
Ekki stendur nemandinn sig betur en húsfreyjan þennan föstudag, en best að rústa ekki sjálfsálitinu með því að fara í þá sálma.
Það sem er hins vegar gaman er að ég fékk að heimsækja nýfæddu saumaklúbbsstelpuna á fæðingardeildina í gærkvöldi og það er kannski lítið skref fyrir mannkynið en stórt skref fyrir mig :) Ef foreldrarnir vissu hvað þeir gáfu mér mikið með því að leyfa mér að knúsast með stelpuskottið...
Jæja nú ætla ég að gefa mér fimm mínútur til að íhuga hvort ég ætli að þykjast læra eða taka úr þvottavélinni eða fara í bankann eða fara að sofa...
Góða helgi :)

Engin ummæli: