Á jóladaginn annan hann Jónas færði mér...
...ekki neitt, enda þekki ég ekki þennan Jónas og vantar hvorteðer ekki talandi páfugl á grein eða þrjú spök hænsn því ég á tvo páfagauka í búri og tíu kjúklinga í frysti.
Ég skaut mig ærlega í löppina þegar ég setti upp kettlingasvipinn í sumar og bað alla foreldra okkar um að vera hjá okkur á jólunum. Ég er nefnilega fyrst núna (kl. 16.05 þann 26. desember) að setjast niður án þess að þurfa að standa upp eftir nokkrar mínútur til að a) græja mat eða b) taka til eftir matinn eða c) taka úr uppþvottavélinni eða d) hella upp á kaffi. Fyrsta skiptið í 30 ár sem mamma þurfti ekki að gera neitt nema borða og taka upp pakka. Pabbi slapp ekki alveg jafn vel því það kann enginn að elda rjúpur jafn vel og hann. Þau gömlu voru hin ánægðustu með þetta og hótuðu að koma aftur næstu jól... Foreldrar Skröggs og systur voru hjá okkur líka á aðfangadagskvöld svo við vorum hérna 10 manns (sást varla í jólatréð fyrir öllum pökkunum). Það var þvílíkt stuð og læti að ég hafði engan tíma til að vera sorgmædd. Ég varð hins vegar reið þegar Skröggur þurfti að fara í útkall að leita að einhverjum fávita sem drakk sig fullan, fór í fýlu og hótaði öllu illu með þeim afleiðingum að 100 manns voru að leita að honum í skítakulda á meðan við hin gæddum okkur á jólamatnum og opnuðum pakka. Bátarnir voru ekki kallaðir út fyrr en við vorum búin að borða og sem betur fer fannst fíflið áður en þeir sjósettu bátinn.
Núna eru allir farnir, Ma, pa litli bróðir og Grísastelpa eru í flugvél á leið til Ígel. Mikið held ég að uppþvottavélin sé fegin. Og ég get loksins farið að taka plastið utan af bókinni sem ég fékk í jólagjöf - svona þegar ég verð búin með síðasta jólaskylduverkið, að fara í jólaboð hjá stórfjölskyldu Skröggs.
Jólahvað...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli