Jahérnahér. Það er að koma nýtt ár. Ég ætla að hefja nýja árið á því að fara út í óveðrið í fína tjullkjólnum mínum og glimmersokkabuxum og kveikja í stóru rakettunni minni. Svo ætla ég að fara með vísu:
Nú stíg ég á stokk
og strengi þess heit
að hlusta á rokk
og verða ekki feit.
Ætli ég þurfi að standa á eldspýtustokki svo áramótaheitið virki? Eða spilastokki? Kannski er þetta betri áramótayfirlýsing:
Nú stend ég á teppi
og segi blákalt
að ég enda ekki á Kleppi
þrátt fyrir allt.
Við Besta frænka gerðum heiðarlega tilraun til að djamma í gær en það var allt lokað þegar við komum niðrí bæ! Asnalegt.
Nú fer að líða að því að maður dembi sér í sturtu og þvoi af sér gamla árið. Ég tek þennan sið svo alvarlega að meira að segja fuglarnir voru settir í bað. Og þurrkaðir með hárþurrkunni sem ég fékk í fermingargjöf. Mikið væri gaman ef árið 1984 tæki við af þessu satans ólánsári. Mig minnir að 1984 hafi verið mjög gott ár. Hárlaugur Rósinkar (eða hvað hann heitir) talnaspekingur segir að 2005 verði vont ár. Jæja, sjáum til...
Gleðileg áramót og passið ykkur á prikunum!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli