14. febrúar 2005

Hananú! Það er bara aftur kominn mánudagur... Það er aldeilis að vikan leið ljúflega fyrst ég tók ekki eftir því! Það er líka alveg rétt að ég gerði ekkert sem var leiðinlegt í vikunni, allavega man ég ekki eftir því. Ég gerði hins vegar margt skemmtilegt. Við Skröggur elduðum okkur til dæmis dýrindis piparsteik og skoluðum henni niður með rauðvíni. Við fórum líka á tónleika með Hjálmum og nokkrum hræðum úr Jagúar. Nokkuð gott. Svo fór ég á kaffihús með Ronju og Lindu sem er gömul vinkona mín og ein af fáum sem myndi drekka vodkagos með rjómabollu. Bjalla mágkona var hjá okkur í sólarhring fiðurfénaði til lítillar gleði því hinir fiðruðu voru lokaðir inni í herbergi á meðan til öryggis. Í vikunni fór ég líka að hitta tilvonandi sálfræðing sem lagði fyrir mig greindarpróf. Eftir á var ég fullvissuð að ég væri allavega meðalgreind svo ég þarf ekki að hafa áhyggjur af því að neyðast til að leggja þroskaþjálfunina á hilluna og verða þess í stað viðfangsefni stéttarinnar. Kannski best að kíkja á námsefnið... svona á meðan ég tel mig vera réttu megin við línuna.

Engin ummæli: