7. febrúar 2005

Alkagenið

Ég mætti í þorrasamsæti kvenfélagsins míns með því hugarfari að drekka eins og einn bjór og fara svo heim fyrir miðnætti. Eftir einn bjór spurði ég Skrögg hvort honum væri ekki sama þót hann myndi keyra heim en ég fengi meiri bjór. Á meðan ég drakk þann bjór galdraði gestgjafinn fram súran lime drykk sem ég hélt að væri heilsudrykkur til að hjálpa líkamanum að vinna úr þorramatnum. Reyndist sá görótti drykkur vera samansettur úr vodka, vodka, vodka, klökum og lime. Aukinheldur var borið á borð töfrateppi í drykkjarformi, töfrandi bragðgott og áhrifaríkt. Það má geta nærri að ég fór ekki heim fyrir miðnætti heldur þurfti vesalings Skröggubuska að yfirgefa svæðið og sækja Grísastelpu í geymslu.
Jæja, ég ákvað nú samt að drekka ekkert á ballinu... þá vissi ég reyndar ekki að gestgjafinn tæki með sér pela með hot and sweet. Hvers vegna ég lét þann fjanda ofan í mig veit ég ekki. Slæmur félagsskapur býst ég við. Ég veit hins vegar alveg hvers vegna ég slokaði í mig hálfum bjór til viðbótar. Það gerðist þegar ég í angist minni áttaði mig á að ég var komin upp á svið með dúettinum Ellismellum og var að fara að syngja hlutverk Siggu Beinteins í Riddara götunnar. Þökk sé Singstar kunni ég að minnsta kosti að halda á hljóðnema. Segi ekki meir um frammistöðuna. En þetta var frábært ball. Frábært kvöld. Hefði ekki viljað sleppa þessu djammi. Jafnvel þótt ég hafi þurft að vakna 4 1/2 tíma eftir að ég kom heim af ballinu og drífa mig í vinnuna á 12 tíma vakt. Vegna þess að núna er mánudagsmorgunn, ég er útsofin og sprelllifandi. No regrets!

Engin ummæli: