Ég er svo heppin að eiga yndislegan Skrögg sem gefur mér gjafir þegar ég eldist en fleygir mér ekki fyrir yngra eintak. Þegar ég fagnaði þrjátíu árunum um daginn afhenti hann mér mynd af fagurgrænum ipod sem ég myndi fá í hendurnar fljótlega. Í dag kom hann loksins og í kvöld er hann fullhlaðin af rafmagni og með 1,3 gígabætum af tónlist... nóg pláss eftir ennþá. Sá græni fékk að sjálfsögðu nafnið Græni Skröggur.
Annars er mest lítið að frétta, ég þykist vera að læra fyrir próf þegar ég er ekki í vinnunni en mér finnst ég bara alltaf vera að vinna... hef samt ekki ennþá stórar áhyggjur af þessu.
Kríli er duglegt að æfa vöðvana sína og bregst við alls konar hljóðum með því að morsa til baka. Það svarar til dæmis fuglunum og ýmsum dularfullum hljóðum sem heyrast í vinnunni. Ég vona að það haldi ekki að það sé fugl eða að fólk tjái sig almennt með gargi og gólum! Það eru 16 vikur þar til það á að koma í heiminn. Mér finnst það óendanlega langur tími! En þegar ég verð búin í prófinu ætla ég að hafa það óendanlega langan og notalegan tíma, njóta þess að vera með iðandi bumbu, fara í meðgöngusund og kaupa áskrift að útlenskum sjónvarpsstöðvum. Og kenna Grísastelpu fleiri heimilisstörf :D
Engin ummæli:
Skrifa ummæli