Eyddi helginni í vinnunni og var varla með lífsmarki þegar törnin var búin vegna þreytu. Er búin að fá leyfi til að vera "róleg" á helgarvöktunum framvegis... það er samveran sem skiptir máli en ekki að vera á þeytingi út og suður. Ég ætla að prófa að vera róleg í heimilisstörfunum líka og athuga hvort iðjuleysingjavinnufélaginn verði duglegur í staðinn.
Í morgun fékk ég staðfestingu á að ég komist að í meðgöngusundinu og ég byrja í næstu viku, sama dag og prófið er. Búin að borga og allt og hlakka bara svolítið til :) Nú þarf ég bara að gá hvort ég passi í eitthvað af sundfötunum mínum!
Annars eyddi ég megninu af deginum á bókasafninu og er ánægð með árangurinn. Ætla að fara aftur í fyrramálið áður en ég fer að vinna. Um næstu helgi á ég frí og þá hefði nú verið kjörið að liggja í bókunum þar en nei... það er opið í nokkra klukkutíma á laugardaginn og ekkert á sunnudaginn! Góð þjónusta við háskólanema á leið í haustpróf eða hitt þó heldur. Verð að finna mér einhvern griðarstað því það verður ekki friður hér fyrir íþróttum í sjónvarpinu geri ég ráð fyrir.
Annars er Skröggur lítið heima núna, hann er að gúmmíbátast í kringum Klint Ístvúdd og flögg feðra hans næstu vikurnar. Þar sem hann hefur lítinn tíma til að sofa á meðan á þessu stendur bið ég fólk um að geyma að hoppa í sjóinn eða fara út á sjó á ónýtum bátum eða án þess að kunna að sigla þar til tökum lýkur svo hann þurfi ekki að eyða hvíldartímanum (og tímanum með mér) í að bjarga slíkum vitleysingum.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli