5. september 2005

Jæja, bara 84 dagar eftir samkvæmt teljaranum... það er ekkert svo mikið, eða þannig...
Vona að sófinn minn sé "möbelfakta" eða standist álíka staðla svo það verði ekki komin hola í hann þegar barnið kemur. Það gáfulegasta sem ég hef gert undanfarið er að kaupa áskrift af erlendum sjónvarpsstöðvum því ég get sofið yfir þeim í sófanum þótt ég geti ekki sofið í rúminu mínu. Kannski verð ég að fá feng shui sérfræðing til að reka illa anda úr svefnherberginu?

Skröggur er hættur að vinna hjá Klint og kominn aftur á skrifstofuna. Það var lokapartí hjá kvikmyndaliðinu á laugardaginn en að sjálfsögðu var mökum ekki boðið með. Við makarnir erum ekki nógu flottar fyrir þetta Hollywood lið, einu kvenkyns hræðurnar þarna voru eskimóamódel. Fuss, sama er mér, hefði ekki getað notið þeirra veitinga sem boðið var upp á og þar að auki er ég er þakklát fyrir að hafa frekar fengið gáfur en langar lappir (fyrst ég gat ekki fengið bæði).

Fór í sundið mitt í dag og tók svo smá rúnt í IKEA og skoðaði enn og aftur allt sem mig langar til að kaupa handa Krílinu þegar það hefur litið dagsins ljós.

Um helgina skoðuðum við Skröggur nokkra bíla og í fyrsta sinn á ævinni hef ég fundið bíl sem ég verð að eignast. Það er engu tauti við mig komið um að kaupa nokkurn annan bíl en samt erum við bara búin að fara í eitt bílaumboð! Annars höfum við svo sem nógan tíma til að spá í bílamál því við þurfum ekki að skila bílnum okkar fyrr en í desember.

Í kvöld hef ég það eitt að markmiði að halda mér vakandi þar til Lost byrjar. Það eru bara þrír þættir eftir og hvernig á maður að lifa af mánudaga án þess að hlakka til að horfa á Lost?

Engin ummæli: