18. október 2005

Wroooom!


Ég ætlaði að fara að skrifa um hvað dagarnir væru viðburðasnauðir en þegar ég hugsaði mig betur um eru þeir það ekki þótt ég sé mest í rólegheitunum hérna heima.
Það getur að minnsta kosti flokkast undir viðburð að Skröggur er búinn að festa okkur draumabílinn sem við fáum afhentan á fimmtudaginn. Þetta er í fyrsta skipti sem ég eignast bíl sem enginn annar hefur átt og þótt ég sé engin bíladellukona hlakka ég til að keyra um á svona fínum bíl.


En þar fyrir utan er lítið um að vera. Ég mæti auðvitað alltaf í meðgöngusundballettinn sem er orðinn lífsnauðsynlegur þar sem ég get varla hreyft mig lengur án þess að vera í vatni. Er enn á kafi í að hekla, búin með eitt krílateppi og er byrjuð á risastóru hippateppi handa grísastelpu. Stefni á að klára það áður en litli grís kemur í heiminn því það er hætt við að handavinnuáráttan láti undan þegar mikilvægara verkefni tekur við.
Á morgun er bumbuskoðun og ég ætla að hafa bílinn, reyna að eyða sem mestu bensíni áður en við skilum honum... og helst nota tækifærið og hitta eitthvað skemmtilegt fólk!

Engin ummæli: