24. október 2005

Kvennafrídagurinn

Kæru systur.
Ég biðst afsökunar á að hafa ekki sýnt samstöðu á þessum merkisdegi.
Ég tímdi ekki að sleppa meðgöngusundinu svo ég hugsaði með mér að ég myndi frekar sleppa göngunni niður laugaveginn (enda get ég ekki gengið langt í mínu ástandi) en mæta bara niður á Ingólfstorg klukkan fjögur. Eftir sundið arkaði ég í átt að næsta strætóskýli en sá þá í skottið á vagninum. Ég labbaði þá í átt að skýlinu niður á Sæbraut og sá að sjálfsögðu í skottið á þeim vagni líka. 25 mínútum síðar sat ég í vagni og hélt mig vera á leið niður á Lækjartorg. En nei, Lækjartorg var lokað svo ég dreif mig út við Hlemm og ætlaði þá að labba niður á Ingólfstorg. Byrjaði að ganga Laugaveginn en virtist vera sú eina sem gekk í þá átt, allar aðrar virtust vera á leið frá Ingólfstorgi. Sú staðreynd og hin að mjaðmagrindin kvartaði sáran lét mig snúa við að Hlemmi aftur. Er þangað kom voru þeir tveir vagnar sem ganga í mitt hverfi að sjálfsögðu nýfarnir. Tæpum tveimur klukkutímum eftir að ég lagði af stað frá Hrafnistu er ég loksins komin heim, búin á líkama og sál og alveg spæld yfir að hafa misst af þessum stórviðburði. Eftir þrjátíu ár verð ég kannski spurð um hvort ég hafi tekið þátt í kvennafrídeginum árið 2005. Þá get ég ekkert sagt nema að ég hafi eytt honum í að bíða eftir strætó...
En ég var allavega í rauðum sokkum.

Engin ummæli: