Saga úr strætó
Í dag fórum við unglingsstúlkan og barn í vagni með strætó niður í bæ. Einhversstaðar á leiðinni kom inn gamall karl, 50% rónalegur og bauð öllum góðan daginn á meðan hann gekk aftar í vagninn. Í smá stund leit út fyrir að hann ætlaði að setjast við hliðina á stelpunni og ég saup hveljur þar sem ég stóð og hélt í barnavagninn. Hann settist sem betur fer í sætið fyrir aftan. Innan fárra sekúndna var ég að verða græn af brennivíns- og sígarettustybbunni af karlinum. Spurði stelpuna hvort við ættum ekki að drífa okkur út og ýtti svo á bjölluna. Þá spyr karlinn hvort við séum saman og ég segi já. "Þá getið þið hjálpast að með vagninn" segir karlinn. "Einmitt" segi ég og brosi blíðlega. Strætó stoppar og við gerum okkur klárar að bera barnavagninn niður tröppurnar. Stendur þá ekki karlinn upp, sópar mér frá vagninum og ætlar að bera hann niður! Ég reyndi að koma honum í skilning um að við gætum þetta alveg sjálfar, takk samt og allt það og á endanum gafst hann upp á að hjálpa okkur og sagðist ekki skyldu skipta sér af!
Þetta var mjög klúðurslegt eitthvað og ég hef örugglega komið honum fyrir sjónir sem vanþakklát stúlkukind að afþakka þessa herramannslegu aðstoð... Úff langbest að labba bara niður í bæ!
1 ummæli:
Uff já ég held ég haldi mig við labbið. Ég á nefnilega enga unglingsstúlku til að hjálpa mér og verð því að treysta á rónana.
Skrifa ummæli