15. október 2007

Í staðinn fyrir að vinna í verkefninu sem ég þarf að skila bráðum dundaði ég mér við að setja nýja óléttumælistiku á síðuna. Bara fyrir Mörtu sem nennti ekki að reikna út vikurnar :)

Það er svo mikið að gera hjá mér að ég hef varla tíma til að vera ólétt. Er orðin grindarglyðra en hef ekki tíma til að gera neitt í því. Hleyp ekki úr vinnunni til að fara í meðgöngusundið, a.m.k. á meðan ég á eftir að klára rekstraráætlunina og ráða í lausar stöður. Ekki fer ég á kvöldin því þá þykist ég ætla að læra. Kosturinn við þetta annríki er að ég hef ekki tíma til að telja niður dagana þar til barnið fæðist. Ég taldi sekúndurnar þegar ég gekk með He-man enda gekk ég með hann í heila öld. En þessar tæpu 17 vikur sem eru liðnar af meðgöngunni leyna sér ekki. Ég er komin með bumbu sem passar vel í nýju óléttubuxurnar mínar. Verst að lappirnar passa ekki jafn vel í skálmarnar.

He-man átti góðan sprett í gær. Mamman hélt að hann væri hjá pabbanum og öfugt. Á meðan hann fékk frið dundaði sá litli sér við að tína drasl úr ruslafötunni inni á baði og henda því í klósettið. Voða duglegur :)

Það er gaman að eiga lítinn grallaraspóa. Hvernig verður að eiga tvo?

1 ummæli:

marta sagði...

takk fyrir nýjan beibítikker :)
Ég held að með tvo verðiru óhjákvæmilega alltaf með hor á öxlinni og þú átt eftir að elska það... ;)