10. maí 2009

Ég er búin að vera svolítið á barnaspítala Hringsins undanfarið. Það er þó sem betur fer ekkert af mínum börnum sem ég sit yfir þar heldur einn af skjólstæðinum mínum í vinnunni. Hann er reyndar ekkert barn lengur en þeir á fullorðinsspítalanum kunna víst ekkert á svona merkilegt fólk.

Á meðan ég hef dvalið hér hef ég hugsað um strákinn minn sem er ekki hjá mér. Hann er að verða fimm ára. Ef hann væri hjá mér værum við kannski hér á barnaspítalanum. Hann væri kannski jafn fatlaður og ungi maðurinn sem ég er að annast núna. Þeir eiga það sameiginlegt að hafa orðið fyrir súrefnisskorti við fæðingu.

Ég hef heyrt að það sé fullt af fólki á barmi taugaáfalls því það er að missa vinnuna eða húsið sitt. Ég hefði fórnað vinnunni minni og húsinu ef ég hefði fengið að hafa barnið mitt hjá mér aðeins lengur.

Ég hélt að ég myndi aldrei aftur verða glöð. En mér skjátlaðist. Ég hef oft orðið svakalega glöð síðan. Enda á ég núna tvo stráka í viðbót sem eru endalausir gleðigjafar (og ormar!). Og stóra stelpu sem er svo skynsöm og dugleg að læra. Ég tók við prófskírteini og viðurkenningum í Laugardalshöll. Síðast en ekki síst á ég frábæran lífsförunaut, ekki veitir nú af þegar maður siglir ekki alveg lygnan sjó í gegnum lífið.

Ef þessi pistill hefur einhvern boðskap er hann líklega sá að það eru ekki veraldlegar eigur mínar sem hafa veitt mér mesta hamingju eða valdið mér mestri sorg.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæl Helga, hélt þú værir hætt að skrifa! Þetta er fallegur pistill og þarfur nú í dag sem fyrr. Börnin mín eru það dásamlegasta sem ég á og ekkert getur nokkru sinni komið í staðinn fyrir tíma með þeim. Þú stendur þig vel í lífinu:)
Kveðja frá Akureyri, Gunnþór

Sunnhildur sagði...

Fallegur pistill Helga.
Knús!

Nafnlaus sagði...

Knús krúttan mín!
Ronjan

Nafnlaus sagði...

Skil ekki hvernig þessi færsla fór fram hjá mér! Mjög fallegt hjá þér og mjög þörf hugsun!!
-Erna