19. mars 2004

Nú er síðasti skóladagurinn á þessari önn búinn. Í dag vorum við að læra hvernig best er að beita líkamanum þegar maður hjálpar fólki í hjólastólum, rúmliggjandi fólki og grænmetisfólki. Ótrúlegt hvað munar miklu að kunna réttu handtökin, átakið verður alveg helmingi minna. Svo er líka hægt að létta sér lífið töluvert við venjuleg heimilisstörf, t.d. með því að hafa koll í þvottahúsinu sem maður situr á þegar þvotturinn er tættur úr vélinni, svo er þvottabalinn settur upp á kollinn áður en þvotturinn er hengdur upp á snúru til að þvottaaðilinn þurfi ekki að reyna eins mikið á hrygginn við þvottaupphenginguna.
Eftir alla þessa líkamsbeitingarfræðslu fór ég í vinnuna og sat þar bogin í baki við tölvuna og bjó til myndrænar mataruppskriftir. Það var gaman. Það fór líka töluverður tími í að tala við allt skemmtilega fólkið sem ég vinn með. Ég á nú alveg eftir að sakna þeirra þegar ég hætti að vinna.
Kristinn sótti mig í vinnuna og fór með mig í uppáhaldsbúðina sína, Ellingsen. Þar fæst alls konar bátadót, björgunarvesti og kaðlar. Ef það væri hægt að kaupa einhverjar aðrar bækur þarna en véladagbækur þá gæti ég örugglega gleymt mér þarna líka og við færum í Ellingsen á laugardögum að slæpast eins og fólk sem fer í Kringluna sér til ánægju.
Því næst var farið í hina vikulegu Bónus innkaupaferð sem er alltaf jafn ánægjuleg, alltaf allt svo girnilegt í Bónus! En þar sem maður sparar svo mikið með því að versla þar frekar en annarsstaðar getur maður stöku sinnum leyft sér að nenna ekki að elda og farið og keypt sér ruslfæði ættað frá hinum hvimleiðu Bandaríkjum. Það var akkúrat það sem við gerðum áðan, fórum á Burger King og tróðum í okkur borgurum og frönskum að minni uppástungu. Svona virkar bumban mín, ég fæ svona óhollustuflugur í höfuðið og er ekki viðræðuhæf fyrr en ég hef fullnægt þörfinni, sama hver kostnaðurinn er!
Er að spá í að opna skyndibitastað með íslenskum mat, hann gæti heitið Sláturhúsið eða Sviðahöllin og myndi örugglega slá í gegn!

Engin ummæli: