Ef Skröggur minn hefði verið með mér fyrir austan hefði allt verið fullkomið... fyrir utan óþarfa fyllerí og þynnku. Í gær var gott veður og ég labbaði út um allar trissur, þar á meðal á bak við Fardagafoss og upp að stíflunni fyrir ofan Búðarárfoss. Það var æðislegt að labba þar og rifja upp að einu sinni var ég barn sem skoppaði um og tíndi ber og blóm handa ömmu. Ekki seinna vænna þar sem fljótlega verða byggðar blokkir á berjalandinu mínu.
Gekk svo endanlega í barndóm í morgun þegar ég fann Mini-Pops plötuna mína... hlustaði á hana alla og komst að því að hún er óskemmd þrátt fyrir aldur og fyrri störf :)
Ástmaðurinn tók svo á móti mér á flugvellinum og eftir að hafa keyrt hann í vinnuna fór ég beinustu leið til ömmu og greinilega voru einhverjar vættir með mér því sú gamla var ekki lengi að stinga upp í sig tönnunum, fara í fötin, setja upp andlit og skjótast með mér í Kringluna. Þar keypti amma íþróttaskó og buxur og nú verður gaman að vita hvernig tekst að fá hana út að ganga þar sem afsökunum fyrir að fara ekki hefur fækkað um þessa tvo hluti!
Á meðan amma var að máta buxurnar sagði afgreiðslukonan að það væri gaman að sjá eldra fólk svona vel á sig komið... ég var ekkert að segja henni að amma lifði á sígarettum, kaffi og sykurmolum og færi helst ekki út úr húsi nema hana vantaði eitthvað af þessu þrennu... Nú getur hún allavega skokkað út í sjoppu í nýjum Nike skóm!!!
Skröggur minn var í björgunarstörfum í kvöld en Lauga bjargaði mér frá leiðindum og við ókum um á nýja fína bílnum hennar og sáum fullt af frægu fólki en sem betur fer samt engan úr Hárinu!
Spurning dagsins er:
Hvaða merkisfólk á afmæli 28. júlí?
a) David Beckham og Lína Langsokkur
b) Gríshildur og Lynja
c) Gunnþór Göltur og Bubbi Kóngur
d) Krummi og Svala Bóbörn
Engin ummæli:
Skrifa ummæli