24. júlí 2004

Jæja, er komin heil á húfi í foreldrahús. Ferðin gekk þrusuvel en útsýnið var ekki mikið því það var rigning eða þoka til skiptis alla leiðina. Jaðraði við að maður yrði myrkfælin þegar komið var fram yfir miðnætti og það eina sem sást voru stikurnar meðfram veginum og kindur sem störðu illilega á okkur svo glampaði á glyrnurnar í gegnum myrkrið og þokuna...
Það er nú engin sól hérna eins og mér hafði verið lofað! En þar fyrir utan mikil huggulegheit, fullur ísskápur af góðgæti, læri í ofninum og margar bækur sem ég á eftir að lesa. Vantar bara Skrögginn minn...
Er búin að fara í skoðunarferð um svæðið, villtist næstum því þar sem bærinn hefur stækkað um helming síðan um jól. Ekki skrýtið að það hafi þurft að stækka Bónus! Er að sjálfsögðu búin að skoða þessa merku verslun sem slær út öllum Bónusum í Reykjavík, þar er svo mikið pláss að fjórar feitar kerlingar gætu farið í kapp með kerrurnar án þess að rekast á stæður af bökuðum baunum eða saklaust fólk. Dásamlegt. Ég vil samt ekki búa hérna.

Engin ummæli: