Jæja, þá er ég komin heim í heiðardalinn, ekki með slitna skó heldur nýja skó, og ekki með Campers skó eins og ég hafði lofað, heldur kappakstursskó!
Þótt fríið hafi verið eins gott og það gat orðið er alveg ferlega gott að vera komin heim. Tengdapabbi tók á móti okkur og þegar við komum heim var íbúðin full af fólki, búið að baka snúða og hella upp á kaffi svo við fengum sannarlega höfðinglegar móttökur :)
Blómin á litla leiðinu eru orðin helmingi stærri en þau voru fyrir tveim vikum. Grísastelpa skreytti það með skeljum sem hún safnaði á ströndinni.
Fór í línuskautaferð í dag, er minna stirð en síðast. Skröggur fékk flugferð og marblett en ég settist í fuglaskít á bekk.
Nú fer ég til ömmu eins og Rauðhetta litla nema ég færi ömmu tvö karton af sígarettum en ekki blóm og kökur...
Engin ummæli:
Skrifa ummæli