Það verður bekkjarpartí hjá mér í kvöld. Af því tilefni er dásemdar ostasalat í ísskápnum. Það orgar og gargar... éttu mig, éttu mig. En ég segi staðfastlega: Nei, ég ætla að éta þig í kvöld, hrúga þér ofan á þunna sneið af baguette og troða henni heilli í skoltinn á mér.... sleeeeef...
Ég var að spá í að taka til á heimilinu en svo datt mér í hug máltækið "að koma til dyranna eins og maður er klæddur". Að sjálfsögðu mun ég fara úr íþróttabuxunum sem ég skellti mér í fyrir tiltektaræðið en það er spurning hvort ég sýni ekki bara íbúðina eins og hún er klædd... það verður líka orðið soldið dimmt svo ég get haft kertaljós og þá sést ekkert hvað er mikið ryk, korn og fiður hér útum allt. En ég hef svosem 4 klukkutíma til stefnu til að gera eitthvað í málunum...
Helgin fór í vinnutörn af stærstu gráðu, ég kom bara heim til að fara að sofa. Skjólinn var ofan á allt lasinn svo ég fór ekki út úr húsi í þrjá sólarhringa fyrir utan bílferðir á milli lögheimilis og sambýlis. Spurning hvort ég þori nokkuð út, maður gæti farið í andrúmsloftsvímu.
Kermit er aftur kominn með maur á gogginn og ég þarf að maka á hann vaselíni þrisvar á dag. Það veldur fúlum fugli og bitförum á fingrum.
Gunnþór segir að ég eigi að fá mér Bessastaðaútlit á síðuna... skyldi hann vilja að ég verði næsti forseti? Ég hefði ekkert á móti því að hækka aðeins í launum sko :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli