21. mars 2005

Jahérna, er aftur kominn mánudagur? Hvað skyldi maður hafa afrekað í vikunni... jú eitthvað er ég búin að vera í vinnunni en heimilið hefur augljóslega setið á hakanum - lesendum er því bannað að birtast óvænt í heimsókn! Fór með grænan páfagauk til dýralæknis þar sem vökva var sprautað ofan í kok á honum og á milli fjaðra. Fékk svo áburð með heim til að bera á greyið. Á þriðja degi smyrsls var ég loksins búin að finna út hvernig best væri að halda fuglinum þannig að ég slyppi óslösuð frá beittum goggnum. Fuglinn er allur að braggast og hendurnar mínar líka...
Grísastelpa er farin Ustur í dekrið hjá ömmunum sínum. Þegar ég var á hennar aldri fór ég suður í dekrið hjá ömmu minni. Mig minnir að við höfum aðallega borðað á skyndibitastöðum nema þegar amma eldaði rétt hússins: buff. Svo fórum við í bæinn þar sem mér tókst iðulega að plata hana til að kaupa eitthvað handa mér án þess að biðja beinlínis um það (hvert er sá hæfileiki farinn?). Síðast en ekki síst gat ég horft á stöð 2 þar sem Örn Árnason ýtti á takka á fjarstýringu til að sýna Transformers eða eitthvað álíka... Mmm það var gaman að vera barn...
Og það getur líka verið gaman að vera fullorðin! Nú er það orðið opinbert að ég fæ stöðuhækkun í vinnunni svo mér er óhætt að skrifa það hér. Stöðuhækkunin felur í sér meiri ábyrgð, hærri laun og minna af kvöld- og helgarvinnu og þetta leggst allt saman vel í mig. Ótrúlegt hvað allt gengur vel... maður verður ósjálfrátt hræddur um að það sé of gott til að vera satt og bráðum taki maður út refsingu fyrir velgengnina! En það er víst bara í trúarbrögðum sem hlutirnir virka svoleiðis og ég er ekki með í þeim bransa núna svo ég ætla bara að njóta þess að vera til.

Engin ummæli: