8. apríl 2005

Ég hafði eytt drjúgum tíma inni á baðherbergi að fjarlægja ýmis hár sem ekki eru talin æskileg á kvenfólki, sérstaklega ef þær eru á leið á árshátíð. Eftir að hafa lokið verkinu leit ég á afraksturinn, ánægð með árangurinn og féll í grát af gleði yfir fegurð minni. Gekk svo út úr baðherberginu. Skaust þá í veg fyrir mig svartur köttur. Hjartað missti þá úr slag. Ekki vegna þess að ég sé hjátrúarfull heldur vegna þess að blessuð fuglskrílin mín höfðu verið að spóka sig utan búrs. Ég þorði varla að gá... var viss um að þeir lægju báðir dauðir því það heyrðist ekki eitt kvak. Og hvernig áttu vesalingarnir að flýja þegar ég var búin að láta klippa af þeim flugfjaðrirnar!
Það fór betur en á horfðist, ég hef sjálfsagt komið fram áður en kattaróbermið kom auga á fuglana. Allamalla. Það munaði ekki miklu að hér hefði verið framið morð á meðan ég var að pjattrófast inni á baði.

Engin ummæli: