6. maí 2005

Jæja mér er aldeilis batnað og það er gott.
Mætti í vinnuna í gær og það var kleppur og klikkun eins og ég átti von á. Ég þoli ekki svona hátíðisdaga þar sem allir eru heima en lágmarks mannskapur til að hugsa um liðið. Fuss. Svo var hringt áðan og grátbeðið um að mæta á aukavaktir um helgina. En ritgerðin mín er númer eitt, tvö og sjö núna. Eftir langa ritstíflu og andlegan geldingshátt er ég loksins að komast á skrið. Eða skreð eins og sagt er í ættarhögunum. Og þá er nú gott að taka sér pásu til að blogga!

Kannski er lýsið bara farið að virka? Nú verð ég að segja lýsissöguna...
Horfði á þáttinn um mannshugann síðasta mánudag. Þar var sagt frá rannsókn sem sýndi fram á bætta einbeitingu barna sem tóku omega-3 fitusýrur. Omega-3 hjálpar taugafrumum í heilanum að mynda tengsl og eiga samskipti hver við aðra. Af því leiðir að minnið batnar og einbeiting eykst. Jæja ég ákvað að fara að éta lýsi til að lappa upp á heilastarfsemina. Fór í Bónus og týndi í körfu eitt og annað en GLEYMDI auðvitað að kaupa lýsið... hvernig á maður að muna að kaupa minnistöflurnar sínar? Seinna náðu lýsistaugaboðin að stritast yfir taugamótin og minnið hrökk í gang þar sem ég var stödd beint fyrir framan Heilsuhúsið. Ég stökk inn áður en minnið sviki aftur og hef núna étið lýsi í 3 daga. Man ekki eftir að hafa gleymt neinu síðan...

Eftir sex vikur verð ég á Costa del Sol. Ég skoða myndir af ströndinni og hótelinu á hverjum degi. Ég hef ekki hlakkað svona geðveikislega til neins síðan ég veit ekki hvenær... en mikið ferlega er það gaman. Þótt ferðin yrði ömurleg væri ég samt búin að eiga dásamlegar stundir með sjálfri mér að ímynda mér hvað ég ætlaði að hafa það gott!

Jæja, áfram með ritgerð...

Engin ummæli: