Kærar þakkir til allra fyrir bumbukveðjurnar :)
Híhí, Ísland komst ekki áfram í júróvisjon! Mér finnst það eiginlega bara fyndið og ef ég hefði verið ein af dansmeyjunum hefði ég flissað líka þegar úrslitin voru ráðin. Júróvisjon partíið er ekkert ónýtt, ég held með Noregi, ét grillsteik og gúmmulaði a la saumó á laugardagskvöldið.
Í morgun fékk ég að berja litla krílið mitt augum, reyndar bara svarthvítt og soldið óskýrt en það leyndi sér ekki að öll helstu líffæri eru á sínum stað, þ.e. hjarta, heili og magi. Þarf maður nokkuð meira? Þótt unginn mælist bara 7 cm langur frá kolli niðrá rass er honum margt til lista lagt, stígur fín dansspor og vinkar foreldrum sínum. Margur er knár þótt hann sé smár :)
Það er mikið um að vera þessa helgi. Í kvöld hitti ég vinkonuskjátur mínar frá Ígel í nýja húsinu hennar frú Sunnu grimmu. Á morgun eru tónleikar með lúðrasveit Grísastelpu, Arsenal vinnur hið bandaríska Man Utd. og svo verður auðvitað Júróvisjon partí. Á sunnudaginn heldur Grísastelpa upp á 12 ára afmæli með því að bjóða til sín fullt af páfagaukaeigendum og fuglum. Þá skal ég líka ná mér í miða á Duran Duran tónleikana. Um helgina ætlum við líka að gera leiðið hans Englagríss fínt fyrir afmælið hans. Á mánudaginn er svo stóri afmælisdagurinn, þá fær Englagrís blöðrur en Grísastelpuafmæli er leyndó ennþá því hún gæti álpast til að lesa þetta!
Skröggur minn hefur ekki setið auðum höndum undanfarið, hann er búinn að taka forstofuna í gegn og kaupa stærri sturtuklefa (var hræddur um að ég myndi festast inni í gamla þegar bumban verður orðin stór). Tóm hamingja!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli