Ég er komin á farsældarfrónið og það er því kominn tími til að skrifa nýjustu fréttir...
Spánarferðin heppnaðist rosalega vel, fín afslöppun, nóg að skoða, gott að borða og æðislegt veður. Gíbraltarferðin var frábær, við fórum með kláfi efst upp á klettinn, skoðuðum dropasteinshella og hittum bilaða apa. Einn var sérlega hrifinn af mér og settist á aparassinn sinn á bera öxlina á mér...namm!
Á fimmtudaginn var svo lagt að stað heimleiðis. Þegar við höfðum flogið í tæpa klukkustund var tilkynnt að snúið yrði við vegna bilunar. Það sem tíminn var lengi að líða þar til við lentum heilu og höldnu... vona að ég eigi aldrei eftir að lenda í svona aftur! Þegar ég var komin yfir þakklætið fyrir að allt hefði gengið vel gat ég farið að barma mér yfir að missa líklega af Duran Duran tónleikunum. Til allrar hamingju sendi forsjónin mér aðra flugvél sem var ekkert biluð og sendi hana nógu snemma í loftið til að við náðum að vera komin í Egilshöllina um sjöleytið. Vá hvað þetta voru geggjaðir tónleikar! Ég var svo í skýjunum þarna að ég fann ekki fyrir hvað ég var útkeyrð fyrr en þeim var lokið.
Með þessum tónleikum hófust miklir tónlistardagar því að sjálfsögðu létum við okkur ekki vanta í Hljómskálagarðinn á föstudaginn og svo í dag var haldið í Smáralindina að sjá WigWam! Bumbukrílið er greinilega komið með starfhæf eyru og góðan tónlistarsmekk því ég hef aldrei fyrr fundið eins miklar hreyfingar hjá því eins og áðan þegar Pink Floyd komu saman á Live8 tónleikunum. Eins og stóri bróðir valdi það eftirminnilega stund til að láta finna almennilega fyrir sér, hann valdi aðfangadagskvöld til þess.
Vá ef Roger Waters og restin af Pink Floyd gátu slíðrað sverðin fyrir málstaðinn hljóta valdakarlarnir að geta lagt eitthvað að mörkum!
Þótt það hafi verið frábært í sólinni er líka gott að vera komin heim. Ætla að njóta þess að liggja í leti þar til næsta ferð verður farin en stefnan er tekin á Manchester næsta föstudag... nei ég vann ekki í lottó! E-kortið virkar bara svona gasalega vel :D
Þeir sem vilja koma í heimsókn og sjá nýju fínu bumbuna mína er bent á að ég er heima í fríi fram á föstudagsmorgunn... hægt að panta tíma símleiðis!
Engin ummæli:
Skrifa ummæli