Í dag átti ég alveg frí, enginn sundtími og engin vinna. Eyddi því mestum hluta dagsins í eldhúsinu til að halda blóðþrýstingnum uppi! Ég toppaði kjötsúpugerðina með myndarskap, bakaði brauð handa sjálfri mér í hádegismat og bjó til gulrótarbuff í kvöldmatinn. Eins og það leit út fyrir að vera einfalt í uppskriftinni var þetta mikið bras, að raspa niður hálft kíló af gulrótum og standa yfir pottum og pönnum í klukkutíma. Árangurinn var grautlinar gulrótardeigs slummur en ég lét mig hafa það að éta þær eftir alla fyrirhöfnina. Næst fer ég í Melabúðina þegar mig langar í grænmetisbuff. Skröggur veit hvað ólétta kerlingin er viðkvæm og hrósaði matnum þótt hann þoli ekki mat sem er hvorki kjöt né fiskur.
Það er gríðarlegt stuð í bumbunni, krílið er líklega að nota tækifærið áður en það verður of þröngt um það þarna inni. Svo fær það bara hiksta af öllum látunum en það er víst ágætis undirbúningur fyrir lífið utan bumbu.
Grísastelpa vildi fá að horfa á DVD mynd sem er bönnuð innan sextán. Ég er hins vegar nýbúin að lesa bæklinginn Verndum bernskuna og sagði að ég væri vond mamma ef ég leyfði henni það... og sveimérþá það virkaði bara. Hún vill að sjálfsögðu ekki eiga vonda mömmu!
Páfagaukarnir eru alltaf að læra eitthvað nýtt. Kermit sem kom til okkar mállaus og hrædd er farin að tala tungum en er ekki búin að læra íslensku ennþá. Hún er líka orðin ansi ákveðin páfagaukspía og bítur mann miskunnarlaust ef henni misbýður. Kíkí lítur ekki á sig sem páfagauk heldur prinsessu sem á heimtingu á kossum og klóri og að fá að príla á fólki þegar henni sýnist. Hún hefur mikinn áhuga á sudoku eins og ég en móðgast bara þegar ég leyfi henni ekki að stjákla á þrautinni og bíta í pennann enda væri hún örugglega miklu fljótari en ég að finna réttu tölurnar.
Þetta blogg er skrifað í Word...
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli