11. september 2005

Sunnudagspósturinn

Var að ná mér í viðbót við Word þannig að ég á að geta skrifað eitthvað í word skjal og sent það beint á bloggsíðuna mína... verður fróðlegt að sjá hvernig það kemur út.

Fór í bumbuskoðun á föstudaginn, allt fínt að frétta af bumbunni en blóðþrýstingurinn minn hafði aðeins hækkað síðan síðast. Ekkert hættulegt samt en minnir á að ég á að taka lífinu með ró.

Og ég er búin að vera frekar róleg um helgina, í gær eyddi ég deginum í stólnum mínum góða, leysti sudoku þrautir, las bók og horfði á þátt um hljómsveitina Berlin sem strákur á VH1 fékk til að koma saman og spila en hljómsveitin hætti fyrir 20 árum. Mjög dramatískur þáttur!

Í dag fórum við Grísastelpa og settum niður haustlauka hjá Englagrís, markmiðið er að um páskana verði komnar upp fallegar páskaliljur. Grísastelpa stóð sig vel í garðyrkjunni, ég er orðin svo mikil bumba að ég átti erfitt með að gramsa í moldinni en stelpan reddaði þessu alveg. Ótrúlegt að það sé liðið ár síðan við settum niður haustlauka síðast, mér finnst eins og það sé miklu styttra síðan.

Eftir garðyrkjuna fórum við að heimsækja ömmusystur mína og gæddum okkur á pönnukökum, heimabökuðu brauði og jólaköku. Komum heim ilmandi af kökulykt og einum kökudiski ríkari því frænka mín er á kafi í postulínsmálun og segist ekkert hafa við þetta dót að gera sjálf! Heppilegt fyrir mig, nú verð ég að fara að baka smákökur til að setja á diskinn... eða kaupa osta og vínber...

Næst á dagskrá er að elda ketsúpu í stóra pottinum mínum sem er notaður tvisvar á ári... á sprengidag og þann dag sem mig langar rosalega mikið í kjötsúpu og hef tíma og nennu til að elda hana... sem er semsagt í dag. (

Skröggurinn minn hefur verið í björgunarstörfum alla helgina, fór í útkall kl 2 aðfaranótt laugardags og var að í rúman sólarhring. Fór svo aftur í dag að leita.

Jæja, Gríshildur ofurhúsmóðir þarf að hefja ketsúpugerð...

Engin ummæli: