I
Gríshildur lokaði ísskápnum eftir að hafa svolgrað í sig hálfan brúsa af appelsínusafa, af stút. Hún sneri sér við og rak þá glyrnurnar í súpuuppskriftabók. Greip hún bókina ásamt nokkrum kexkökum og settist við lestur og át. Í miðri bók staðnæmdist hún við uppskrift af mexíkóskri nýrnabaunasúpu. Eftir að hafa fullvissað sig um að ekki þyrfti að heita Jamie Oliver og hafa fjárráð seðlabankastjóra til að matreiða réttinn ákvað hún að súpan yrði réttur kvöldsins.
II
Bónus. Ljóshærð jólakúla reynir að smokra sér fram hjá ráðvilltum eldri borgurum sem vita ekki hvar neitt er og stöðva umferð með því að stilla sér upp í hópum milli hilla og setja upp vegatálma úr innkaupakerrum.
Loksins kemst jólakúlan í röðina að kassanum. Þegar hún býr sig undir að tína lauk og avokado upp á afgreiðsluborðið riðlast röðin þar sem gamall karl ryðst fram fyrir alla í skjóli aldurs. Jólakúlan ljóshærða er snör í snúningum, snýr sinni kerru þannig að karlfauskurinn nái ekki að taka fram úr á lokasprettinum og otar fram stórri bumbunni til öryggis. Karlinn lúffar en lætur gufa af sér ógeðslega gömlukallalykt í hefndarskyni.
III
Mexíkósk nýrnabaunasúpa. Grænmetissoð, baunir, laukur og fleira góðgæti mallar í potti. Eftir 30 mínútna mall á að láta súpuna kólna í pottinum og mauka svo í matvinnsluvél áður en lengra er haldið. Gríshildur nennir ekki að bíða og hendir draslinu strax í mixarann. Lokið á blandaranum mýkist í hitanum og skýst af. Rautt gums gusast upp í loftið, á veggina, á brauðristina og eldavélina og á Gríshildi. Dóttirin sem situr og skrifar stafsetningaræfingu er með hausinn í lagi, hleypur til og slekkur á blandaranum þar sem kokkurinn er svo steini lostinn yfir ósköpunum að hann getur sig hvergi hrært.
IV
Eldhúsið er loksins orðið hreint. Gríshildur er þakklát fyrir að hafa sloppið lýtalaus frá því að fá á sig fljúgandi sjóðheita súpu. Súpan er borin á borð og smakkast ljómandi vel. Eins gott.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli