26. október 2005

Án titils

Í fréttum er það helst að íbúinn er kominn með höfuðið á ofan í grindina á mér en situr þó ekki pikkfast þar ennþá. Eins gott því hann á ennþá eftir að snúa sér aðeins betur til hliðar ef hann hefur hugsað sér að hafa fæðinguna sem þægilegasta fyrir okkur bæði. Við erum bæði við hestaheilsu samkvæmt niðurstöðum hefðbundinna mælinga. Ég nenni ekki að barma mér yfir grindinni... ég get alveg verið hress þótt ég komist ekki langt á tveimur jafnfljótum (seinum!).

Nýi bíllinn minn er æðislegur, miklu betri en strætó. Ég ætla samt að halda áfram að fara ferða minna í strætó því ég er orðin svo fáránlega hrædd við umferðina að ég vil helst ekkert vera að keyra sjálf... enda líður ekki sú vika að ég keyri ekki framhjá sjúkrabíl að pikka upp fólk úr bílhræi. :(  Þar sem það er svo stutt síðan varð strætóslys get ég ekki ímyndað mér að það verði annað svoleiðis í bráð!

Marta og Hjörtur komu í heimsókn í gær og ég skipti á gæjanum alveg sjálf og fór létt með það. Þarf þá ekki að hafa áhyggjur af því að lenda í vandræðum með þann hluta af barnauppeldinu. Held reyndar að ég eigi bara eftir að brillera í þessu öllu saman þótt sé langt um liðið síðan síðast. Það eina sem gæti orðið til vandræða væri að ég myndi ekki tíma að leyfa neinum að halda á barninu (það er víst til, las það á netinu!). Svo þarf hugsanlega að eyða einhverri orku í að hafa hemil á ömmum, öfum og öðrum í fjölskyldunni sem gætu eyðilagt þaulskipulagðar og úthugsaðar uppeldisaðferðir mínar með dekri...  En það er seinni tíma vandamál.

Ég er búin að jafna mig á kvennafrídagsbömmernum, þótt ég hefði getað labbað alla leið á Ingólfstorg hefði ég ekki komist að til að heyra og sjá vegna mannfjöldans. Það er nokkur huggun fólgin í því. Og ef við þurfum annan kvennafrídag eftir 30 ár, sem ég vona auðvitað ekki, er alveg á hreinu að ég verð ekki ólétt þá og verð fyrst kvenna til að mæta!

Engin ummæli: