38 vikur!!! Ef ég hefði ekki verið svona harðákveðin í að fæða Krílið væri kominn tími á keisaraskurð núna. Þótt ég sé orðin frekar óþreyjufull þá vil ég miklu frekar bíða þar til rétti tíminn kemur heldur en að láta fjarlægja barnið með skurðaðgerð þegar engin þörf er á því. Ætla að vera dugleg að bryðja járntöflur næstu dagana svo ég verði ekki eins og slytti eftir fæðinguna.
Kíktum á m&m (Mörtu og hinn nýskírða Matthías Hjört) í gær. Marta hafði bloggað eitthvað um Smáralindarferð okkar um daginn og seinna verið spurð hvort ég héti í alvörunni Gríshildur!
Annars er mest lítið að frétta, það eina sem ég hef skipulagt fyrir þennan dag er að fara á bókasafnið og í sund. Var að lesa glæpasögu sem ég var svona miðlungsspennt yfir þar til kom að yfirvofandi dauðsfalli páfagauks í sögunni... þá fyrst fór ég að naga neglurnar. Enda var það eini karakterinn í bókinni sem ég skildi almennilega.
Talandi um páfagauka... Er búin að vera á leiðinni með Kíkí í vængsnyrtingu svo hún geti ekki gert loftárás á Kríli þegar það kemur. Einhverra hluta vegna hef ég ekki lufsast til þess enn. Í fyrrinótt hrökk ég svo upp við rosa læti, þá var fuglinn með þvílíka hamaganginn inni í búri, búin að taka af sér fullt af flugfjöðrum sem lágu á víð og dreif. Daginn eftir kíkti ég betur á hana og sá fullt af nýjum fjaðurstilkum. Það er ekki hægt að klippa þessar nýju fjaðrir fyrr en þær eru fullvaxnar svo Kíkí er ekkert á leiðinni í klippingu á næstunni. Ég er auðvitað búin að eigna henni miklar gáfur fyrir að hafa gert þetta til að losna við að fara í vængsnyrtingu :)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli