“Kva, erum við múslimar eða eikkvah?” spurðii dóttir mín fúl þegar ég bað hana/skipaði henni að fara í bol sem næði niður fyrir buxnastreng. Kom svo aftur fram í aðeins síðari bol sem var samt stuttur. “Má ég ekki vera með maga eða...?” Eftir japl, jaml og fuður endaði hún í hlírabol af mér innanundir bolnum sem var ekkert stuttur að hennar mati. Ég er semsagt mjög leiðinleg í dag og alveg á mína ábyrgð að blessað barnið hafði ekki tíma til að borða morgunmat áður en hún fór í skólann vegna þess að ég var með þetta vesen...
Ég varð ekki lítið hissa þegar blóðþrýstingurinn mældist fínn í skoðuninni í morgun því ég var ennþá pirruð yfir þessu bolaveseni. En við Kríli erum í toppformi og látum utanaðkomandi áreiti greinilega ekkert á okkur fá.
Í gær var ég svo heppin að fá Mörtu og Matthías Hjört og svo Ronju í heimsókn svo dagurinn leið hratt.
Við Ronja fórum svo á tónleika í Neskirkju með Ellen&Eyþóri og Steina í Hjálmum. Þar hittum við Unnar og Hákon en við hittum þá síðast á aðeins öðruvísi tónleikum - Duran Duran! Ellen söng sálma en Steini reggílaus Hjálmalög í rosalega notalegri stemningu. Krílið virtist ánægt með tónlistina, það vaggaði sér rólega í bumbunni, var ekki eins tryllt og á Dúndurfréttatónleikunum :) Aumingja Skröggur þurfti að vera á húsfundi á meðan tónleikarnir voru, hann er ritari húsfélagsins og gat því ekki skrópað.
Í kvöld fer ég aftur í Neskirkju en þá til að hlusta á Lúðrasveit Reykjavíkur... það verður trúlega aðeins meiri hasar!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli