9. nóvember 2005

Þurfti að fá lánaða stóra íþróttatösku Grísastelpu undir allan farangurinn sem ég tel okkur Skrögg og Kríli þurfa að nota þann sólarhring sem við hyggjumst dvelja á fæðingardeildinni. Skröggur furðaði sig á hvað þetta væri mikið því síðast tókum við bara með okkur lítinn bakpoka. Eina afsökunin sem ég hafði fyrir öllum útbúnaðinum var að nú væri vetur og betra að vera við öllu búinn...

Grísla kom heim að austan í gærmorgun og í stað þess að vera ábyrgt foreldri og senda hana beint í skólann dró ég hana með mér í morgunkaffi til Mörtu og þau Hjörtur fóru svo með okkur í Smáralind. Þar verslaði ég jólafötin á Grísastelpu sem var hæstánægð og ég er líka mjög ánægð að vera búin að því. En það fer ekki hjá því að ég sé smá abbó líka því hún fékk flott föt sem ég væri alveg til í að eiga... en það verður einhver bið á því að ég geti spókað mig um í svona pæjufötum!

Fór í skoðun í morgun, allt fínt í bumbunni þótt Kríli hafi einhvernveginn náð að hífa sig upp úr grindinni. Ég hef því ekki í hyggju að missa vatnið fyrr en það er aftur orðið skorðað. Sé samt einhvernveginn fyrir mér agalegar aðstæður, t.d. ég í strætó á leið í sund þegar kemur skyndileg gusa og ég verð að leggjast á bakið á gólfið í strætó, hringja í 112 og biðja um að vera pikkuð upp í sjúkrabíl þegar strætó stoppar á Hlemmi... uppáhaldsstaðnum mínum í öllum heiminum! Mér til huggunar las ég á netinu að aðeins um 15% missa vatnið áður en þær finna fyrir hríðum. Tíminn sem ég eyði í strætó er líka innan við 4 klst á viku svo tölfræðilega eru ekki miklar líkur á svona strætódrama :)

Engin ummæli: