11. janúar 2008


Það gefst ekki oft tími til að setjast niður og blogga. En núna hef ég svosem ekkert betra að gera á meðan ég bíð eftir að verkjalyfin virki á tannpínuna sem heldur fyrir mér vöku um miðja nótt. Ólétta og tannpína fara einstaklega illa saman því óléttar konur mega víst ekki hakka í sig hvaða pillur sem er.

Á morgun er síðasti forstöðumannsdagurinn minn. Eftir það verð ég bara deildarstjóri aftur. Þá verður sólarhringsábyrgð aflétt af herðum mínum. Sem betur fer því grindverkur ágerst með hverjum deginum og ég þarf að fara að minnka við mig vinnuna. Annars gekk þetta allt ljómandi vel þrátt fyrir viðvarandi starfsmannaeklu. En það er sko ekki mér að þakka heldur duglegu konunum sem standa vaktirnar.

Bumbi dafnar vel og dundar sér við að pota í rifbeinin mín með hælunum. Hreiðurgerðaráráttan er að gera vart við sig því nú ætlum við að taka svefnherbergið okkar í gegn, mála, setja nýtt gólfefni og kaupa nýja fataskápa. Með breytingunni verður til meira pláss fyrir rimlarúm, skiptiborð og kommóðu undir krílaföt.

He-man fer á kostum þessa dagana því hann virðist hafa fengið málið í jólagjöf. Það eru þó ekki allir sem skilja hvað hann meinar þegar hann segir til dæmis "stór húfa hahahæ". En það þýðir á fullorðinsmáli "Eyrnastór er með jólasveinahúfu". Á jólaballi um daginn heyrðist hópur barna hrópa á jólasveininn. Allir nema einn kölluðu "jólasveeeeiiiinnnn". Þessi eini kallaði "hahahææææ".
Ég vildi að tíminn myndi stoppa aðeins (ekki samt á meðan ég er með tannpínu) svo ég hefði meiri tíma til að njóta þess að eiga þennan litla strák og festa í minninu allt sem mér finnst svo dásamlegt við hann.

Paratabs kikkar inn og ég ætla að reyna að klára að sofa...

1 ummæli:

soffia sagði...

maður tárast við að lesa svona frásögn.
Hlakka mikið til að hitta þig